Sjö lykiláherslur hverfisskipulags

Hvert hverfisskipulag er unnið eftir gátlista um visthæfi byggðar

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er skilgreindur gátlisti fyrir visthæfi byggðar. Gátlistanum er ætlað að gefa borgaryfirvöldum vísbendingar um visthæfi mismunandi hverfa með það að markmiði að móta tillögur og aðgerðir til úrbóta.

Með vistvænum lausnum og umhverfisvænni hugsun er kröfum samtímans mætt um leið og með ábyrgum hætti er gætt að hag komandi kynslóða. Aðgerðir sem byggja á þessum sjö lykiláherslum munu styrkja hverfi borgarinnar og gera hana fallegri og heilsusamlegri. Með þessum aðgerðum verður Reykjavíkurborg í forystu við innleiðingu vistvænna lausna og sjálfbæra þróun í skipulagi.

  1. Samfélag

Í vistvænu hverfi blómstrar lifandi og kraftmikið samfélag. Þar býr fólk á öllum aldri – barnafjölskyldur, pör, einstaklingar og ellilífeyrisþegar – enda fjölbreytt framboð á húsnæði og búsetuúrræðum. Í hverfinu er verslun og þjónusta í göngufæri, iðandi mannlíf, afþreying og íþróttastarfsemi. Í vistvænu hverfi hafa íbúarnir tekið virkan þátt í að móta sitt nánasta umhverfi.

  1. Gæði byggðar

Í vistvænu hverfi er byggingarsögu, byggðamynstri og götumyndum sýnd virðing. Í hverfinu eru ein eða fleiri borgargötur og hverfiskjarnar með fjölbreyttri verslun og þjónustu. Helstu götur í hverfinu hafa verið endurhannaðar fyrir alla ferðamáta með gróðri, góðri lýsingu og bekkjum. Almenningsrými eins og leik- og útvistarsvæði eru í hverfinu og gönguleiðir skjólsælar þökk sé trjám og byggingum. Í vistvænu hverfi eru tækifæri til borgarbúskapar og íbúar geta ræktað matjurtir bæði á lóðum og á borgarlandi.

  1. Samgöngur

Samgöngur í vistvænu hverfi setja gangandi og hjólandi vegfarendur ásamt almenningssamgöngum í forgang. Biðstöðvar almenningsamgangna eru í hæfilegri göngufjarlægð frá öllum íbúum í hverfinu.  Almenningssamgöngur eru tíðar og þéttofið net hjóla- og göngustíga tengir borgina saman. Umferðargötur eru öruggar, umferðarhraði er takmarkaður og bílastæðum er komið þannig fyrir að dýrmætt land nýtist vel. Íbúar vistvæns hverfis nota vistvænar samgöngur og draga um leið úr svifryki, loftmengun og hávaða.

  1. Vistkerfi og minjar

Í vistvænu hverfi er hlúð að vistkerfum og náttúrulegum svæðum. Líffræðilegri fjölbreytni og jafnvægi er viðhaldið. Áhugaverðar jarðmyndanir og gróður njóta verndar og hindrað að mengun berist inn á viðkvæm svæði. Í hverfi sem liggja að sjó, ám eða vötnum fær upprunaleg náttúra að njóta sín. Úrkoma er meðhöndluð með blágrænum ofanvatnslausnum og leidd um hverfið í lækjum og tjörnum.  Forn- og menningarminjar ásamt áhugaverðum húsum og götumyndum eru verndaðar.

  1. Orka og auðlindir

Í vistvænu hverfi nota íbúar orku og auðlindir á sjálfbæran hátt. Losun á gróðurhúsalofttegundum er í lágmarki og gróður í borginni bindur kolefni úr andrúmslofti. Vistvænir orkugjafar eru notaðir á hagkvæman hátt og úrgangur flokkaður og endurunninn. Íbúar hverfisins hafa aðgang að grenndarstöðvum í göngufæri þar sem þeir geta skipst á nytjahlutum. Í hverfinu eru hleðslustöðvar fyrir rafbíla og gott aðgengi að deilibílum. Bætt loftslag og minni losun gróðurhúsalofttegunda er mikilvægur þáttur í stefnu borgarinnar sem ætlar að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040.

  1. Mannvirki

Þegar byggð eru ný mannvirki í vistvænu hverfi eru notaðar umhverfisvænar lausnir og byggingarefni. Eldri mannvirki fá að breytast og þróast með viðbyggingum, viðhaldi og nýjum vistvænum lausnum.  Hluti af þessu er að laga einangrun eldri mannvirkja til að bæta orkunýtingu. Á þennan hátt er dregið úr neikvæðum áhrifum mannvirkjagerðar á umhverfi og náttúru um leið og borgarumhverfið er gert mannvænna og heilsusamlegra.

  1. Náttúruvá

Vistvænt hverfi er skipulagt með mögulega náttúruvá í huga – jarðhræringar, flóð og óveður m.a. af völdum loftslagsbreytinga. Ný byggð er staðsett utan þekktra sprungusvæða og fjarri svæðum þar sem hætta er á snjóflóðum og skriðuföllum. Tekið er tillit til hækkandi sjávarstöðu og gerðar ráðstafanir til að draga úr flóðahættu. Trjágróðri er plantað til að binda jarðveg og tempra vind og byggðamynstur formuð til að skapa skjól og minnka hættu fyrir fólk og verðmæti.